Prýðiströppur og torg milli Brautarholts og Laugavegar

Prýðiströppur og torg milli Brautarholts og Laugavegar

Hvað viltu láta gera? Opnum portið við Þjóðskjalasafnið sem torg og megingönguleið frá Laugavegi upp í Holtin. Við enda Katrínartúns stendur Þjóðskjalasafnið. Á miðju starfssvæði þess er stórt port sem gaman væri að glæða lífi. Stærsti hluti portsins er ætlaður sem bílastæði, en það er lítið notað og portið allt líflaust og lítið hirt. Svæðið býður hins vegar upp á ótal möguleika, og svona stór og opin svæði fágæt í fjölförnum útjaðri miðborgarsvæðisins. Hugmynd okkar gengur út á að opna portið heldur meira til norðurs, byggja fallegar breiðar tröppur úr portinu upp í Brautarholtið og skapa vistlegt svæði fyrir mannlíf, fótgangandi umferð og samkomur í portinu sjálfu. Með þessu móti opnast skemmtileg leið af Laugarvegi og frá fyrirhugaðri stoppistöð Borgarlínu upp í eitt þéttasta og örast vaxandi hverfi borgarinnar. Opnun portsins til norðurs skapar einnig tilkomumikla sjónlínu úr tröppunum, niður eftir Katrínartúninu, beint á eitt fallegasta hús borgarinnar - Höfða - og þaðan yfir sundin á Akrafjallið. Í venjulegu árferði er þessi hluti Laugavegar fjölfarinn af ferðamönnum á leið milli miðborgarinnar og stóru hótelanna nokkru austar í borginni. Ef vel tekst til mætti ímynda sér að þetta torg og tröppurnar yrðu allnokkuð kennileiti í borginni. Kannski ekki alveg "spænsku tröppurnar" í Róm, en í öllu falli þær íslensku í Reykjavík ;) Hvers vegna viltu láta gera það? Þessi opnun gerir mikið fyrir Holtahverfið allt saman. Heilt á litið er hverfið býsna lokað til norðurs. Gönguleiðir úr Skipholti og Brautarholti niður á Laugaveg eru ýmist um þröngar götur og húsasund eða um Nóatúnið þar sem umferð er nokkuð mikil og aðstaða fyrir gangandi og hjólandi ekki til fyrirmyndar. Önnur tveggja stoppistöðva Borgarlínu sem koma til með að þjóna hverfinu er skipulögð við enda Katrínartúns og opnunin mun þannig tengja hana beint upp í þéttbýlustu svæði hverfisins. Jafnframt má gera ráð fyrir að í tengslum við stoppistöðina muni tenging fyrir gangandi umferð yfir Laugaveginn vera auðvelduð á þessum slóðum. Saman munu opnun gögnuleiðarinnar um portið og sú þverun Laugavegarins hjálpa til við tengingu úr Holtum niður að sjávarsíðunni við Sæbraut með sínum hjóla- og gögnustígum. Með tröppunum og opnun portsins myndast skemmtilegur útsýnisstaður við Brautarholt með sjónlínu niður Katrínartún yfir Höfða og Sundin eins og áður sagði. Reisulegt hótel sem stendur ofan portsins rammar útfærsluna svo skemmtilega af til suðurs. Þarna verður jafnframt til nýtt útivistar- og samkomusvæði í hverfinu, steinsnar frá nýbyggðum stúdentagörðum og öðrum stórum fjölbýlishúsum. Undir útsýnisstaðnum við Bratuarholtið mætti hugsa sér upphækkun sem nota mætti sem svið þegar svo ber undir. Hugmyndin sem hér er lögð fram er að sönnu aðeins að hluta til í borgarlandinu, þannig að samstarf við Þjóðskjalasafnið myndi vera lykilatriði í að gera þetta að veruleika. Við metum það sem svo að þetta væri tilvalið tækifæri fyrir Þjóðskjalasafnið til að tengjast hverfinu og íbúum þess sterkum böndum. Söfn og mannlíf eiga samleið og þarna gefst safninu tækifæri til að kynnast fólkinu í hverfinu og fólkinu að kynnast starfsemi safnsins.

Points

Frábær hugmynd sem myndi gera svo mikið fyrir hverfið og fólkið!

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Fagteymi sérfræðinga verkefnisins hefur lokið við yfirferð hugmynda. Hugmyndin þín er ekki tæk* til kosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020 - 2021 þar sem verkefni hugmyndarinnar er ekki innan verkefna / valdheimilda Reykjavíkurborgar eða ekki á borgarlandi. Næsta skref í verkefninu er að velja þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson [email protected]

Prýðileg hugmynd! Þarna er gráupplagt tækifæri fyrir starfsfólk Þjóðskjalasafnsins að tengjast þjóðinni jafn vel og það hefur tengst skjölunum. Ég sé fyrir mér mínatúr sýningar frá safninu í gluggum sem snúa út í portið.

Frábær hugmynd! Þjóðskjalasafnið er svo spennandi hús, algerlega einstakt í Reykvískri byggingarlistasögu. Hálfnýtt bílastæðið er nú í portinu, bílastæði sem dregur niður reisn hússins og starfsemi þess. Að skapa borgartorg þarna myndi draga miðbæinn austar inní holtin og tengja nýtt hverfi á helkureit betur við flæði borgarinnar!

Hugmyndin er fín. Mætti hugsa sér ýmislegt til að fá fólk til að staldra við, líka þegar veður er ekki stórkostlegt, hvort heldur skjalasýningar safnsins (birta merkileg en stutt skjöl, skipta oft um), kaffivagn, eða annað. Sem sagt, bara mjög gott.

Frábær hugmynd og löngu tímabær. Þarna má bæta í og setja upp útisýningar með myndum úr/af merkum gögnum safnsins, eins og gert hefur verið annarsstaðar um borgina og á Langasandi á Akranesi. Opnun safnsins fyrir almenningi með almennum og sértækum sýningum er líka löngu tímabær. Útlitstillögu þessa má án efa bæta, en grunnhugmyndin er góð. Það mætti þess vegna bæta í og setja upp glerskála vestan eða austan megin torgsins þar sem hýsa mætti kaffihús og viðburði til að glæða þetta frekara lífi.

Frábær leið til að opna holtin fyrir gangandi umferð. Tengir vel saman tún og holt og opnar fyrir alls kyns viðburði, sýningar, matarvagna, jólamarkaði og hvaðeina í útjaðri miðbæjarins.

Ég styð þetta heilshugar, frábær hugmynd.

Frábær hugmynd og í góðum takti við stækkun miðborgarinnar til austurs, með nýbyggingunum við Katrínartún. Fólksfjöldi á svæðinu hefur aukist mjög með hótelbyggingum og nýju íbúðarhúsnæði, en að sama skapi eru fá sameiginleg útirými. Sé fyrir mér tónleika á sumarkvöldum með sviðið við norðurenda torgsins - í baksýn Esjan böðuð kvöldsól.

Frábær hugmynd

Skemmtileg hugmynd sem ýtir undir gleði og samveru og yrði þrusuviðbót við hverfið. Ég sé fyrir mér hita í stétt, hitara fyrir vetrarmànuðina og jafnvel plexí þak/skjól svo að Þjóðskjalatorgið geti nýst sem best yfir vetrarmánuðina.

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information